Vikulegir opnir tímar

Hjá Vegvísi ráðgjöf er boðið uppá opna hópa ætlað konum í uppbyggingarferli sem eru að takast á við afleiðingar af skaðlegri áfengis-og vímuefnanotkun eða byggja sig upp eftir erfiða lífsreynslu sem hefur áhrif á líðan þeirra og hindrar þær mögulega í því að ráða vel við daglegt líf.

Til að komast í hóp þarf kona að hafa verið á námskeiði hjá Katrínu eða hafa komið í ráðgjafarviðtal til hennar.

Katrín sótti námskeið í júní 2017 og í júní 2019 í Bandaríkjunum á vegum Stephanie S. Covington sem er höfundur þess efnis sem hópastarfið byggir á. Á námskeiðinu var kynnt það handrit sem fylgt er eftir í hópastarfinu og þátttakendur fengu leiðbeiningar um hvernig koma eigi á hópum fyrir konur með vímuefnavanda og vinna með þeim til að taka á vanda sínum.

Hvers vegna er mikilvægt að hafa kvenhópa

Konur eru frekar styðjandi hver við aðra þegar hóparnir eru einungis skipaðir konum og leiðbeinandinn er kona.

Konum getur þótt erfitt að deila með körlum reynslu sinni af ofbeldi og persónulegum málum.

Rannsóknir hafa sýnt að það er betri og meiri meðferðarheldni hjá konum sem eru í kynskiptum hópum og þar sem konur eru leiðbeinendur.

Hópameðferð hefur styrkjandi og valdeflandi áhrif á konur þar sem vandi þeirra er viðurkenndur og staðfestur. Hópurinn hefur þau áhrif að konan upplifir að hún tilheyri einhverju og eigi í heilbrigðum og traustum samskiptum sem styður konurnar í því að halda uppbyggingarferli sínu áfram.

Það eru mörg málefni sem konur treysta sér ekki til að tala um í blönduðum hóp kvenna og karla. Það eru mál sem snúa að líkamsvirðingu, ofbeldi, skömm og stimplun meðal annars.

Í kvennahópum geta konur verið óhræddar við að afhjúpa tilfinningar sínar og líðan. Konur geta borið sig saman við aðrar konur og upplifanir sínar af samböndum við foreldra, börn og maka. Þær geta fengið góð ráð og upplýsingar hvernig hægt er að gera hlutina öðruvísi og kynnast nýjum og öðrum sjónarhornum og skoðunum. Ekki má gleyma að bera virðingu fyrir körlum og samskiptum kynjanna þó verið sé að leggja áherslu á þarfir kvenna.

Skráning hér