Um mig
Katrín er félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur og hefur unnið með einstaklinga, pör og fjölskyldur sem glímt hafa við persónulegan- félagslegan- og/ eða samskiptavanda. Katrín hefur lagt áherslu á að vinna með afleiðingar áfalla og reynslu og upplifanir úr æsku sem mögulega geta haft áhrif á hegðun, viðbrögð og samskipti fólks á fullorðinsárum. Katrín hefur mikla þekkingu á fíkn og þeim vanda sem getur fylgt fíkninni bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra.
Katrín er með meistaragráðu í félagsráðgjöf og hefur lokið tveggja ára námi í Fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún hefur ProfCert frá University College Dublin í vinnu með konum og vímuefnavanda. Einnig er hún með diplómagráðu frá Háskóla Íslands í áfengis-og vímuefnafræðum. Hún hefur lokið námskeiði í Háskólanum á Akureyri um sálræn áföll og ofbeldi þar sem áhersla er lögð á forvarnir, einkenni, afleiðingar og meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem orðið hafa fyrir sálrænum áföllum og ofbeldi með það að markmiði að efla einstaklinga á öllum sviðum.

Katrín hefur réttindi til að veita EMDR meðferð (Eye movement Desensitization and reprocessing) sem er sálfélagsleg meðferð sem þróuð hefur verið til að vinna úr afleiðingum áfalla hjá einstaklingum.
Katrín hefur lokið námskeiði í Sáttamiðlaraskólanum og hefur leyfi til að veita sáttamiðlun.
Katrín hefur sótt og lokið námskeiðum í Endurmenntun H.Í. í Áhugahvetjandi samtali (e. Motivational Interviewing) sem byggir á samvinnu um úrlausn fagaðilans og einstaklingsins frekar en innrætingu og stjórnun. Katrín hefur lokið námskeiði í Lausnamiðaðri nálgun (e. Solution focused therapy) sem felur í sér valdeflingu og nýtir þá hugmyndafræði þegar hún veitir ráðgjöf, stuðning eða meðferð. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði er áhersla lögð á lausnir en ekki vanda og horft er á styrkleika frekar en veikleika einstaklinga. Unnið er með það sem gengur vel en ekki það sem gengur illa. Horft er til framtíðar en ekki til fortíðar á þann hátt að einstaklingar geta nýtt reynslu sína sér til framdráttar og með því haft áhrif á líf sitt. Þannig er hreyfingu komið af stað í lífinu og mögulegum hindrunum rutt úr vegi til að ná jákvæðum og raunsæjum árangri og auknum lífsgæðum.
Katrín hefur tileinkað sér hugmyndafræði Skaðaminnkandi nálgunar (e. Harm reduction) og hefur ásamt öðrum verið ein af frumkvöðlum hér á landi í að kynna hugmyndafræðina og koma henni á framfæri víða með fyrirlestrum, kennslu og rituðu efni.
Katrín vann um tíma á fíknigeðdeild Landspítalans. Hún hefur starfað um árabil sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Bæði í Konukoti sem er neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur og í verkefninu Frú Ragnheiður sem er færanleg heilbrigðisþjónusta fyrir jaðarhópa. Sú vinna byggir á hugmyndafræði Skaðaminnkandi nálgunar (e. Harm reduction) og hefur þann tilgang að ná til jaðarhópa samfélagsins með heilbrigðisþjónustu án fordóma.
Katrín hefur einnig starfað sem ráðgjafi í Bjarkarhlíð sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Þar hefur hún einnig leitt hópastarf fyrir konur sem hafa verið beittar ofbeldi af hvaða tegund sem er.
Hún hefur einnig verið leiðbeinandi á námskeiði ætlað konum hjá Hjálparstarfi kirkjunnar sem heitir Stattu með sjálfri þér –Virkni til farsældar.
Katrín hefur verið stundakennari við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og kennt þar efni um konur og vímuefni bæði í diplómanámi og á meistarastigi.
Katrín starfað frá árinu 1977 til 2017 sem flugfreyja hjá Icelandair og hefur mikla reynslu í samskiptum og þjónustu við fólk. Katrín var í mörg ár aðal trúnaðamaður Flugfreyjufélags Íslands á vinnustað og sat í stjórn og samninganefnd Flugfreyjufélagsins ásamt því að sinna mörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir félagið.
Katrín sat í stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands um tíma og var talskona faghóps félagsins um áfengis-og vímuefnamál.