Námskeið fyrir konur sem glímt hafa við vímuefnavanda

Hjá Vegvísi ráðgjöf er boðið upp á námskeið  fyrir konur sem glímt hafa við vímuefnavanda og afleiðingar áfalla og ofbeldis.

Fyrirmynd námskeiðanna kallast á ensku Helping women recover og kemur frá Stephanie S. Covington félagsráðgjafa sem er frumkvöðull í vinnu með fíkn og áföll hjá konum. Í samræmi við það er lögð áhersla á að fíknivandi sé afleiðing af áfalli (ens. trauma) og/eða öðrum fjölþættum vanda í lífi kvenna og að neyslan sé því einkenni en ekki frumorsök.

Lögð er áhersla á fjóra þætti á námskeiðinu

  1. Sjálfsmynd, sambönd og samskipti kvenna
  2. Hvað er áfall og hverjar eru afleiðingar áfalla
  3. Hvað er ofbeldi og hverjar eru afleiðingar af ofbeldi
  4. Framtíðarsýn

Innan þessara þátta eru undirflokkar þar sem farið er ítarlega í þau atriði sem talin eru mikilvæg fyrir konur í uppbyggingarferli. Leiðbeinandinn fylgir ákveðnu handriti sem hann hefur fengið þjálfun í að fylgja.

Á námskeiðinu er unnið með styrkleika kvennanna og spurt hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim. Hvernig þær hafi komist af og til hvaða bjargráða hver og ein þeirra hafi gripið. Kynntar eru nýjar aðferðir til að takast á við vandann í stað neyslu í hvaða mynd sem er.

Markmiðið með námskeiðinu er að konurnar öðlist aukna sjálfsvirðingu, aukið sjálfsmat og sjálfsþekkingu sem einstaklingar, í stað þess að skilgreina sig í gegnum sambönd eða stöðu sína. Konurnar finni styrkleika sína og geti byggt framtíð sína og betra líf á þeim.

Hópurinn hittist í 10 skipti einu sinni til tvisvar í viku eftir efnistökum, 90 mínútur í senn. Fjöldi í hverjum hóp eru 8-10 konur til að tryggja að hver og einn þátttakandi njóti námskeiðisins sem best. Hver þátttakandi fær afhend námskeiðsgögn í hverjum tíma. Starfið fer fram í húsnæði Vegvísis ráðgjöf  í Hafnarfirði.

Skráning hér