Fróðleikur um félagsráðgjöf

Frá upphafi félagsráðgjafar hefur heildarsýn verið leiðarljós félagsráðgjafans og kjarninn í allri vinnu hans. Hugmyndafræðin sem liggur að baki heildarsýnar er að hver og einn einstaklingur sé sérstakur og horfa verður á hann í samhengi við umhverfi hans.

Grundvöllur félagsráðgjafar er mannvirðing og virðing fyrir sérstöðu hvers einstakling og trúin á að hver og einn búi yfir hæfilelikum sem hann getur nýtt sér til fulls. Félagsráðgjafar vinna gegn félagslegu óréttlæti og vinna að lausnum á persónulegum og félagslegum vanda sem staðið er frammi fyrir hverju sinni. Félagsráðgjafi vinnur gegn mannnréttindabrotum óháð því hvar þau eiga sér stað. Í siðareglum félagsráðgjafa kemur fram að félagsráðgjafi fer ekki í manngreinarálit og á að virða rétt hverrar manneskju til sjálfsákvörðunar. Félagsráðgjafi leitast við að byggja upp gagnkvæmt traust við skjólstæðing sinn. Félagsráðgjafinn gætir hagsmuna skjólstæðing síns sé hann ekki fær um það sjálfur og er jafnframt málsvari þess sem til hans leitar. Félagsráðgjafinn upplýsir skjólstæðing sinn um réttindi og skyldur og hvaða úrræði standa honum til boða.

Markmið félagsráðgjafar er að endurvekja og viðhalda félagslegri virkni einstaklinga í samfélaginu. Styrkur félagsráðgjafar liggur í því að búa yfir aðferðum og þekkingu til að vinna með einstaklingum, fjölskyldum, hópum og samfélaginu í heild sinni. Félagsráðgjafinn dregur fram þær bjargir sem einstaklingurinn býr yfir eða eru í samfélaginu til að breyta aðstæðum skjólstæðingnum í hag.

Jafnframt greinir félagsráðgjafinn þá þætti hjá einstaklingnum sjálfum eða umhverfi hans sem hindrar hann í því að búa við besu mögulegu lífsgæði. Þar sem hver einstaklingur er sérstakur þarf úrræði honum til handa að vera sértækt og sniðið að hans þörfum. Þrátt fyrir fjölbreytta og mikla þekkingu er hann ekki sérfræðingur í málefnum skjólstæðings síns, það er skjólstæðingurinn sjálfur. Hins vegar getur félagsráðgjafinn nýtt sér kenningar og aðferðarfræði sem verkfæri til að leiðbeina einstaklingum sem leita til hans. Heildarsýn félagsráðgjafans er eitt helsta verkfæri hans til að styðja skjólstæðing sinn til sjálfshjálpar og sjá styrkleika hans frekar en veikleika.

Hafa samband