Fjölskylduráðgjöf
Fjölskyldumeðferð er skilgreind sem meðferð þar sem tekið er mið af áhrifamætti fjölskyldunnar sem heild. Leiðarljós meðferðarinnar er velferð fjölskyldunnar og möguleikinn á að hámarka lífsgæði hennar.
Talið er að fjölskyldan búi yfir krafti og lausnum sem geta stutt við og leitt til jákvæðra breytinga hjá einstaklingum og fjölskyldunni sem heild. Á sama hátt getur þessi sami kraftur hindrað það að settu meðferðarmarkmiði verði náð. Það er því mikilvægt að bera kennsl á styrkleika og veikleika fjölskyldunnar.
Hugmyndin sem liggur að baki er að fjölskyldan er samsett úr kerfum þar sem eru yfir- og undirkerfi. Samkvæmt fjölskyldukerfiskenningu er virkni einstaklinga og samskipti milli fjölskyldumeðlima mikilvæg. Litið er svo á að hægt sé að breyta öllu sé þess þörf. Það er mögulegt með því að skoða og skilja samskipti og tengsl milli einstaklingann og kerfanna innan fjölskyldunnar.
Fjölskyldan gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að mótun einstaklinga og ef hluti kerfisins er vanvirkur hefur það áhrif á alla fjölskylduna.
Líðan og hegðun einstaklinganna innan fjölskyldunnar hefur áhrif á samskiptin og tengslin innan hennar. Hver og einn verður fyrir áhrifum af því sem gerist hjá öðrum innan fjölskyldunnar Í fjölskyldumeðferð er ekki nauðsynlegt að allir fjölskyldumeðlimir taki beinan þátt í meðferðinni. Það getur verið einn einstaklingur, hjón, amma og afi og fleiri. Tekið er mið af aðstæðum og í samræmi við þann sem óskaði eftir aðstoð við sín persónulegu samskiptamál hverja hann vill hafa með í meðferðinni.