Ráðgjöf og stuðningur vegna áfengis- og vímuefnavanda

Frá fornu fari hefur áfengis- og vímuefnaneysla fylgt manninum og svo mun verða áfram. Framboð af vímuefnum hefur aukist í vestrænum samfélögum og neyslan í samræmi við það. Það er óraunhæft að tala um vímuefnalaust samfélag. Því er brýnt að horfa á afleiðingar neyslunnar og bregðast við þeim skaða sem vímuefni geta valdið einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu öllu. Það verða alltaf til einstaklingar sem vilja ekki eða geta ekki hætt neyslu sinni. Því verður að bregðast við  og mæta þörfum þeirra og draga úr neikvæðum afleiðingum neyslunnar án þess að krefjast algjörs bindindis af þeim.

Ríkjandi  viðhorf í samfélaginu á áfengis- og vímuefnavanda er að fíkn sé ólæknandi krónískur heilasjúkdómur og eina lækningin við honum sé ævilangt bindindi. Þær meðferðir sem eru í boði fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur taka mið af því að fíkn sé heilasjúkdómur.  Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu heilbrigðisráðuneytis er meðferð fyrir fólk með áfengis- og vímuefnavanda skipt í þrjá aðalflokka. Á geðdeild Landspítalans fer fram læknisfræðileg meðferð, meðferð fer fram á stofnunum sem syðjast við 12 spora kerfi AA- samtaka og meðferð á stofnunum sem hafa kristna trú að leiðarljósi. Þrátt fyrir að AA- samtökin og 12 sporin hafi hjálpað mörgum í glímu sinni við fíknivanda þá henta þessar aðferðir alls ekki öllum og það ber að virða en leita nýrra leiða til að mæta þörfum þeirra.

Með hugmyndafræði skaðaminnkandi nálgunar og lausnamiðari nálgun á fíknivanda er komið fram með nýtt og annað sjónarhorn til að bregðast við vandanum. Kynntar hafa verið sálfélagslegar kenningar sem skilgreina ekki fíkn sem sjúkdóm heldur er fíknin einkenni sem koma fram hjá einstaklingum vegna undirliggjandi þátta eða persónugerðar hans.

Hjá Vegvísi ráðgjöf geta einstaklingar, pör/hjón og fjölskyldur fengið stuðning og ráðgjöf til að takast á við vímuefnavanda og gera viðeigandi breytingar til að bæta líðan sína. Það skiptir þá ekki máli hvort það er sá sem er að nota vímuefni eða einstaklingur sem stendur nærri notendanum.

Hafa samband